Á leiðinni frá flugvellinum að dvalarstað sínum heyrði ferðalangur einn ákaft tal tveggja trölla, Kreddu og Kenningar sem stóðu á bak við stein.
Kredda hóf leikinn og sagði: „Leikum verurnar. Við segjum: „Sannleikurinn er sá að þessi teketill er ekki til,“ sem er raunveruleikinn. Vandinn er sá að við vitum þetta vel en hinir vilja ekki trúa því. Ef við segðum aðeins sannleikann myndum við tala þar til við værum bláar í framan og þyrftum að bíða þar til einhver áttaði sig á því að allt sem við segðum væri í raun og veru sannleikurinn. Það mun aldrei gerast því eins og við vitum er fólkið þrjóskt, heimskt og illa innrætt. Við erum þær einu sem höfum opinn huga og erum vitrar og góðar því við höfum skilið sannleikann eins og okkur var sagður hann. Þar sem við erum þær einu í þessum heimi sem eru þannig og verðum áfram þær einu, mun sannleikurinn heldur aldrei verða til þess að aðrir öðlist sömu innsýn ef fram heldur sem horfir. Því er okkur vandi á höndum.“
Hinu tröllinu, Kenningu, fannst leikurinn skemmtilegur og tók þátt: „Þarna gefst þó ákveðinn möguleiki. Við tökum þá afstöðu að það sé staðreynd að það er enginn teketill og notum til þess alla þá vegu sem eru færir til að dreifa skilaboðum og bera kennsl á málið. Við bönnum því alla frjálsa umræðu, skilgreinum þessa afstöðu sem óvéfengjanlega og sanna staðreynd og sýnum ekkert umburðarlyndi fyrir neinum frávikum.“
Kredda greip inn í: „Það er allt saman gott og blessað. En til þess þarf maður völd því sá boðskapur að ekki sé til neinn teketill hefur engin völd né möguleika á að öðlast völd. Og við höfum heldur engin völd.“
„Það er ekkert mál að leysa það,“ fullyrti Kenning: „Til eru verur sem hafa völd eða leitast við að hafa völd. Við gerum samkomulag við þær. Við færum þeim lögmætið sem fylgir sannleikanum og sem löngun þeirra í vald og stöðu þarfnast með þessum boðskap okkar sem hinir einu sönnu boðberar sannleikans og því verður tillögum þeirra hlýtt möglunarlaust. Í staðinn fáum við valdið …“
„Snilld! Og ef þær hlýða ekki þá brennum við þær með tevatninu og troðum telaufum upp í þær uns þær kafna í þeim. Þetta er gott plan,“ sagði Kredda með glampa í augunum.
„En þar með sönnum við þvert á sannleikann og boðskapinn að við drekkum te!“ skaut Kenning inn í.
„Hvaða máli skiptir það? Ertu búinn að gleyma að við erum hinir einu, sönnu boðberar sannleikans? Við höfum völdin, lögmætið og úrræðin til að réttlæta það. Við segjum bara að við höfum neyðst til þess. Skilurðu?“ og þannig lauk fyrra tröllið leiknum. „Komdu, drekkum te úr tekatlinum og syngjum. Það er svo þreytandi að leika þessar verur.“
Voðir mínar
gaf eg velli að
tveim trémönnum.
Rekkar það þóttust
er þeir rift höfðu:
Neis er nökkvinn halur. 1)
Þannig urðu verurnar að eldjötnum.
1) „Hávámál og Völuspa“, Gísli Sigurðsson, Svart á Hvítu, Reykjavik 1986
þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir