Sandkaka

(c) Zen&Senf

Uppi í dalnum fyrir ofan sundlaugina á Seyðisfirði voru tvö tröll að prakkarast í hraunsandinum.

„Leikum leik veranna. Gerum ráð fyrir að börn þessara vera leiki sér í sandkassa, rífist, steli leikföngum hvers annars, lumbri hvert á öðru og blandi sandkökurnar sínar með vatni sem gerir sandkassann ónothæfan til leikja þar sem hann verður fljótlega fullur af drullu,“ sagði annað tröllið og henti nokkrum litlum gjallmolum í sandinn. „Sjáðu, þarna birtist skyndilega á töflu róluvallarins texti eins og ósýnileg hönd hafi skrifað hann: „Þú skalt ekki blanda vatni við sandkökur í sandkassanum og ekki slást. Fara skaltu eftir þessum reglum,“ og þar sem börnin eru ennþá ólæs, les eigandi róluvallarins þetta fyrir þau. – Núna fer hann. – Sjáðu, þarna kemur umsjónarmaður.“

(c) Zen&Senf

„Allt í lagi,“ sagði hitt tröllið og tók þar með þátt í leiknum og setti einn stóran gjallmola við hlið mörgu, litlu gjallmolanna: „Flestir hætta að drullumalla og slást. En það á bara við um flesta, ekki alla. Það þýðir að þeim verður ekki aðeins refsað af hinum heldur líka af umsjónarmanninum. Þó þau rífist ekki lengur um málið, berja þau afbrotamanninn þeim mun harðar þar sem hann hefur ekki aðeins blandað sandkökurnar sínar með vatni heldur einnig hunsað eina regluna með gjörðum sínum.“

„Það má ekki horfa framhjá því. Hins vegar hefur nokkur friður komist á í sandkassanum, börnunum til mikillar gleði. Þau eru sem sagt þegar byrjuð að gera greinarmun. Það þarf samt að leiðrétta það að börnin og þar með umsjónarmaðurinn geti hunsað annað boðorðið vegna þess að einhver hefur brotið fyrsta boðorðið, finnst þér það ekki? Gerum þá ráð fyrir að á töflunni á róluvellinum birtist skyndilega texti eins og hann hafi verið skrifaður af ósýnilegri hönd: „Hugsaðu um tilfinningar þínar því þær geta orðið til þess að þú blandir sandköku með vatni eða berjir einhvern. Láttu stjórnast af kærleika.“ Þar sem börnin eru enn ólæs og þar sem umsjónarmaðurinn neitar að lesa textann þarf eigandinn aftur að sinna því verkefni. Sjáðu, þarna kemur ein mamman,“ sagði fyrra tröllið og bætti öðrum stórum gjallmola í hópinn.

„Frábært. Sjáðu nú þetta!“ hrópaði annað tröllið hissa. „Því miður hefur staðan aðeins versnað núna. Ekki bara verða afbrotabörnin barin af hinum heldur er nú hafin barátta milli móðurinnar og umsjónarmannsins að ástæðulausu þar sem umsjónarmaðurinn sagði að aðeins fyrra boðorðið gilti en móðirin vill meina að bæði boðorðin séu gild. Sjáðu bara, þetta gengur svo langt að umsjónarmaðurinn og móðirin leita nú fylgismanna meðal barnanna. – Og nú berja þau hvort á öðru – og nú leyfir móðirin fylgismönnum sínum að berja á öðrum fylgismönnum sínum. Fylgismenn umsjónarmannsins berja sömuleiðis líka hina fylgismenn hans. Eru þau þá blind, heyrnarlaus og skilningsvana?“

„Við munum einmitt geta sannreynt það því sjáðu bara, þarna birtist annar texti á töflu leikvallarins. Viltu lesa hann?” spurði hitt tröllið.

Kannið einnig ásetning ykkar, þaðan sem tilfinningarnar koma sem geta valdið því að þið blandið vatni við sandkökur eða berjið aðra. Þekktu sjálfan þig með sannleika,” las seinna tröllið.

„Sérð þú þetta líka?“ spurði fyrra tröllið: „Eigandinn þarf að lesa þetta aftur því nú neita bæði umsjónarmaðurinn og móðirin að gera það. – Þarna kemur líka einn afinn!“

Annað tröllið kastaði enn einum stórum gjallmola í hraunsandinn: „Sjáum til hvort nú verði loksins komið á friði. Þetta ætti að vera nógu skýrt núna. – Ótrúlegt. Nú rífast umsjónarmaðurinn, móðirin og afinn jöfnum höndum og berja hvert annað ásamt eigin fylgismönnum. Trúirðu þessu!“

„En heimskulegt,“ sagði hitt tröllið í uppgjafartón: „Það er ekki meira pláss á töflunni á leikvellinum fyrir fleiri bókstafi, ekki eitt orð, hvað þá heila setningu og enginn hugsar um textann hvort sem er.“

„Þau þurfa heldur ekki fleiri texta,“ og þannig lauk annað tröllið leiknum: „Verurnar hafa sýnt að þær vilja ekki skilja þetta. Þær vilja frekar bara gera það sem þær langar, hvort sem um er að ræða barn, afa, mömmu eða umsjónarmann. Þar með hefur verið sannað að einum bókstaf í viðbót væri ofaukið. Setningarnar standa óbreyttar eftir atburðina. Þær voru þó meira en vináttuvottur.“

„Ég hef líka tekið eftir þessu,” sagði vinur hans og klifraði undir steininn: „Þær buðu hins vegar líka upp á möguleika fyrir verurnar til að kynnast sjálfum sér og skilja sig.“

„Jæja, kennisetjarinn hefur blindað þau gagnvart eigin veruleika. Þetta er svo leiðinlegt, leikum einhvern annan leik,“ og undan steininum hljómaði:

Ósnotur maður
er með aldir kemur,
það er best að hann þegi.
Engi það veit
að hann ekki kann,
nema hann mæli til margt.
Veita maður
hinn er vætki veit,
þótt hann mæli til margt.
1)

Síðan var þögn.

1) „Hávámál og Völuspa“, Gísli Sigurðsson, Svart á Hvítu, Reykjavik 1986 

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

Þegar fullorðnir leika

(c) Zen&Senf

Á leiðinni frá flugvellinum að dvalarstað sínum heyrði ferðalangur einn ákaft tal tveggja trölla, Kreddu og Kenningar sem stóðu á bak við stein.

Kredda hóf leikinn og sagði: „Leikum verurnar. Við segjum: „Sannleikurinn er sá að þessi teketill er ekki til,“ sem er raunveruleikinn. Vandinn er sá að við vitum þetta vel en hinir vilja ekki trúa því. Ef við segðum aðeins sannleikann myndum við tala þar til við værum bláar í framan og þyrftum að bíða þar til einhver áttaði sig á því að allt sem við segðum væri í raun og veru sannleikurinn. Það mun aldrei gerast því eins og við vitum er fólkið þrjóskt, heimskt og illa innrætt. Við erum þær einu sem höfum opinn huga og erum vitrar og góðar því við höfum skilið sannleikann eins og okkur var sagður hann. Þar sem við erum þær einu í þessum heimi sem eru þannig og verðum áfram þær einu, mun sannleikurinn heldur aldrei verða til þess að aðrir öðlist sömu innsýn ef fram heldur sem horfir. Því er okkur vandi á höndum.“

Hinu tröllinu, Kenningu, fannst leikurinn skemmtilegur og tók þátt: „Þarna gefst þó ákveðinn möguleiki. Við tökum þá afstöðu að það sé staðreynd að það er enginn teketill og notum til þess alla þá vegu sem eru færir til að dreifa skilaboðum og bera kennsl á málið. Við bönnum því alla frjálsa umræðu, skilgreinum þessa afstöðu sem óvéfengjanlega og sanna staðreynd og sýnum ekkert umburðarlyndi fyrir neinum frávikum.“

Kredda greip inn í: „Það er allt saman gott og blessað. En til þess þarf maður völd því sá boðskapur að ekki sé til neinn teketill hefur engin völd né möguleika á að öðlast völd. Og við höfum heldur engin völd.“

„Það er ekkert mál að leysa það,“ fullyrti Kenning: „Til eru verur sem hafa völd eða leitast við að hafa völd. Við gerum samkomulag við þær. Við færum þeim lögmætið sem fylgir sannleikanum og sem löngun þeirra í vald og stöðu þarfnast með þessum boðskap okkar sem hinir einu sönnu boðberar sannleikans og því verður tillögum þeirra hlýtt möglunarlaust. Í staðinn fáum við valdið …“

„Snilld! Og ef þær hlýða ekki þá brennum við þær með tevatninu og troðum telaufum upp í þær uns þær kafna í þeim. Þetta er gott plan,“ sagði Kredda með glampa í augunum.

„En þar með sönnum við þvert á sannleikann og boðskapinn að við drekkum te!“ skaut Kenning inn í.

„Hvaða máli skiptir það? Ertu búinn að gleyma að við erum hinir einu, sönnu boðberar sannleikans? Við höfum völdin, lögmætið og úrræðin til að réttlæta það. Við segjum bara að við höfum neyðst til þess. Skilurðu?“ og þannig lauk fyrra tröllið leiknum. „Komdu, drekkum te úr tekatlinum og syngjum. Það er svo þreytandi að leika þessar verur.“

Voðir mínar
gaf eg velli að
tveim trémönnum.
Rekkar það þóttust
er þeir rift höfðu:
Neis er nökkvinn halur.
1)

Þannig urðu verurnar að eldjötnum.

1) „Hávámál og Völuspa“, Gísli Sigurðsson, Svart á Hvítu, Reykjavik 1986 

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir