Ég vakna eftir stórkostlega drauma, stíg fram úr rúminu og fæturnir lenda beint ofan í hreina sokka og pússaða skó og fötin, nýpressuð af ástsjúkri vinkonu bíða mín undir nærbuxunum hennar og þau skríða silkimjúk á útlimina og blettast ekki af heitu brasilísku lúxuskaffi sem aðdáandi minn úr næsta húsi kom með í morgun eins og venjulega með beinu flugi frá Brasilíu og svo kveiki ég á útvarpinu þar sem uppáhaldslagið mitt rennur sitt skeið á undan fréttum sem eru mér allar að skapi og svo geng ég út og anda að mér einstaklega súrefnisríkum loftsveip sem fyrir tilstilli hentugrar vindáttar og þverbrotinna náttúrulögmála fylgir mér að bílnum sem aldrei bilar og svo set ég í gang og tek eftir að bensíntankurinn er fullur og vélin er hljóðlát og stillt á lágmarkseyðslu eftir yfirferð bifvélavirkjans sem kom í gær til þjónustu reiðubúinn á vegum félags sem ég vissi ekki að ég væri í og ég renn úr hlaði og kveiki aftur á útvarpinu og heyri að í gærkvöldi voru lottótölurnar mínar enn dregnar út eftir beinu útsendinguna frá spurningakeppninni sem ég vissi öll svörin í og næst flytur skýrmæltasta fréttaþulan fréttir frá Alþingi þar sem óþverrafrumvarpi var hent út með öllum atkvæðum gegn engu og ég keyri af stað og sé blaðastand þar sem stendur á forsíðum allra dagblaða að blóðið sem ég gaf í Blóðbankanum í gær hafi leitt til lækningar á krabbameini og ég brosi og á næstu umferðarljósum blístra ég lag sem tónlistarmaður í næsta bíl fær á heilann og gerir heimsfrægt á komandi mánuðum og á grænu ljósi keyri ég í veg fyrir bíl bankaræningjaflokks og hann veltur án þess að nokkur meiðist og þeir gefast upp baráttulaust því þeir festu fingurna í öskubökkunum og ég fæ fálkaorðu og mikil verðlaun og er boðið að vera gestur í vinsælasta sjónvarpsþætti landsins og ég er kosinn maður ársins af stjórnanda þáttarins sem heitir Jóna Sólný en upp úr því sef ég hjá henni og barna eins og allar konur sem ég snerti og börnin mín eru öll hraust og hamingjusöm og vegnar vel í lífinu og þegar ég hef lagt í gjaldfrítt stæði á besta stað í miðbænum hitti ég óvænt á röltinu leiðtoga heimsins gráa fyrir járnum á barmi styrjaldar og spyr Bandaríkjaforseta á Eyjafjallaensku hvað klukkan sé en með þessum hreim þýðir spurningin eitthvað stórmerkilegt á kínversku og leiðtogi þeirrar þjóðar grípur orðin á lofti og allir sættast og leysa upp úr því helstu vandamál heimsins og í þakkarskyni gefur frönsk sendinefnd mér verðlaunabúðing með ananasbragði þegar ég geng á braut og klukkan er bara tíu og sólin skín á mig gegnum einu skýjaglufuna á himninum og yfir hafið fjúka peningar ofan í vasa mína þar sem leið mín liggur framhjá besta bíóinu í bænum þar sem uppáhalds myndin mín er í sýningu og ég fer inn og þar er troðfullt út úr dyrum nema besta sætið er eftir fyrir mig og þetta er power sýning í þrívíddarvíðómi og við fagnaðarlæti horfi ég á bestu mynd allra tíma