Lítið á enda

(c) Zen&Senf

Ekki langt frá Hvanngili dönsuðu þrjú tröll, Durgur, Bófi og Barefli í kringum stein einn og léku uppáhaldsleikinn sinn, leik veranna.
Við dansinn í kringum steininn sungu Durgur, Bófi og Barefli lag sitt í kór:

„Það er svo gott,
að við erum
ekki til í raun,
því við myndum alltaf
draga það strá
sem styttra væri.“

Barefli: „Hvert er umkvörtunarefni yðar?“

Durgur: „Það geta allir staðfest að ég var alltaf heiðarlegur. Nú er ég kominn á þann aldur að ég er farinn að ganga frá veraldlegum málum mínum og þess vegna stend ég hér. Þessi vera segir að ég skuldi peninga fyrir dauða minn. Ég þarf að greiða leigu fyrir mitt dauða hulstur. Hann er líkræningi og ég ásaka hann því um þjófnað.“

Bófi: „Við þurfum að standa straum af kostnaði vegna dauða hans. Líkami hans þarf pláss, það þarf að viðhalda kirkjugarðinum, við sem samfélag töpum verðmætri lóð og hann tekur plássið frá einhverjum öðrum. Ég fer aðeins að lögum. Þegar einhver hendir rusli í ruslafötu þarf líka að greiða fyrir það. Hann er bara ekkert annað en slugsi.“

Barefli: „Hvernig getið þér, Durgur, eytt tíma okkur hér út af slíku smámáli? Ég skil þetta ekki heldur. Sá ásakaði er aðeins að fylgja lögum og rétti. Hann er þræll laganna, réttarins vegna. Þér getið því ekki ákært hann heldur lögin sjálf. Ég verð að vísa kæru yðar frá þar sem ekki er við þann ákærða að sakast í þessu máli.“

Durgur: „Hann er böðull. Ég á tilkall til þess grundvallarréttar sem dauði minn er og hann skal álitinn slíkur. Hvernig má það vera að með því að nýta mér náttúrulegan rétt minn verði ég mér úti um verulegar skuldir?“

Barefli: „Ég er líka böðull orðsins og líka þræll laganna, réttarins vegna. Auk þess þurfið þér ekki að greiða skuldina. Ættingjar yðar þurfa að greiða skuld yðar.“

Durgur: „Með náttúrulegum rétti mínum, dauðanum, borga ég sanngjarnt verð fyrir fæðingu mína. Skuldin hefur því verið jöfnuð út. Skuldir mínar til ríkisins vegna tilvistar minnar hér hafa einnig allar verið greiddar auk alls þess sem ég skuldaði öðrum. Þér vitið einnig að peningaskuldir sem af dauða mínum stafa eru aðeins til komnar laganna vegna, ekki réttlætisins. Að innheimta slíkar peningaskuldir af ættingjum mínum vegna þeirrar staðreyndar að ég hafi dáið er blygðunarlaus hagnýting á guðhræðslu þeirra. Þó þetta sé ekki þeirra skuld, heldur aðeins skuld þeirra samkvæmt lögum, er þeim skylt að greiða skuldina og þar af leiðandi er engin undankoma möguleg undan skuldinni sem er ekki þeirra.“

Barefli: „Þannig er þetta bara. Annars vantar fleira upp á ákæru yðar. Lögin okkar boða að það atriði sem véfengja á með ákæru þarf að hafa átt sér stað áður en hægt er að kæra atburðinn. Það er óvéfengjanlegur grundvöllur laganna. Hér, eins og þér sjáið sjálfir, hefur þetta ekki átt sér stað í tilfelli yðar. Hér er því enginn grundvöllur til ákæru. Ég verð því að vísa kæru yðar frá samkvæmt lögum og reglu.“

Durgur: „Get ég sem sagt bara borið upp kæru mína hér eftir að ég er dáinn?“

Barefli: „Svona er þetta bara. Samkvæmt lögunum er það samt sem áður ekki mögulegt því þó að grundvöllur til ákæru sé þá til staðar er enginn ákærandi lengur til staðar og samkvæmt lögum má enginn leggja fram kæru eftir andlát sitt og því þyrfti einnig að vísa þeirri kæru frá. Saksóknari gæti í því tilfelli lagt fram kæru fyrir yðar hönd en til þess þyrfti hann að geta stuðst við lögin. Þér þurfið því að snúa yður að löggjafanum.“

Durgur: „En það gætu liðið margir áratugir þar til nægilega margir eru kosnir á þing sem trúa því að hinir dauðu ættu ekki að greiða leigu eftir dauða sinn. Þegar maður lítur einnig til þeirrar staðreyndar að þing samfélagsins hefur hag af því að rukka leigu af þeim sem deyja, og að starfsmenn þingsins, eins og sá ákærði hérna, græða á því, og þegar maður hugsar til þess að þér sjálfir, hæstvirtur dómari, gegnið forystuhlutverki á umræddu þingi og eigið þar af leiðandi hagsmuna að gæta í málum er varða að þingið, þ.e.a.s. að rukka dauðaleigu af þeim sem deyja, er nokkuð ljóst að ég verð löngu dáinn og rotnaður áður en að því kemur.“

Barefli: „Mér þykir þetta ólán yðar líka leitt. Þetta fylgir þeirri áhættu sem allir taka með lífinu. Við verðum öll að fara að lögum og reglu. Hvernig færi fyrir okkur ef við gerðum það ekki? Þér getið sannarlega borið upp kæruna við dómara þinn á áfangastað. Vinsamlegast standið upp. Eftirfarandi dómur fellur í rétti þessum: Kærunni er vísað frá … ákærandi greiðir allan málskostnað.“

Durgur: „Verurnar tala um lög og réttlæti en fara frekar að lögum en réttlæti…“

Barefli: „…þannig verða lög að óréttlæti, náttúruréttur…“

Bófi: „… að mannréttindum, lýðræði…“

Durgur, Bófi og Barefli: „… að einræði fjöldans og lífið að gamalkunnum leik með of litlum prikum.“

„Þveginn og mettur
ríði maður þingi að
þótt hann sét væddur til vel.
Skúa og bróka
skammist engi maður
né hests in heldur,
þótt hann hafit góðan.“ 1)

1) „Hávámál og Völuspa“, Gísli Sigurðsson, Svart á Hvítu, Reykjavik 1986 

þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir

deBedenke das Ende