Ferðalangur: „Við höfum nú kynnst heilmiklu um þessar verur og eftir stendur spurningin: hvað gerir það að verkum að þessar verur eru svo ólíkar öðrum tegundum?“
Hugsuður: „Jæja, líklega má þar helst nefna það sem yfirleitt kallast mannleg samskipti.“
Ferðalangur: „Hvað útskýrir þá fílskúna sem stendur við hlið kynsystur sinnar sem er að fæða kálf til að verja hana mögulegum árásum rándýra þar sem hún er ófær um að verja sig sjálf í þeirri stöðu?“
Hugsuður: „Gott og vel. Kannski er þar á ferðinni fyrirbærið sem yfirleitt kallast samkennd.“
Ferðalangur: „Og hvað kallast þá viðbrögð plantna sem sýna merkjanleg viðbrögð við því þegar nágrannaplöntur þeirra eru drepnar með eitri?“
Hugsuður: „Fari vísindin til helvítis. Eftir stendur það sem flestir kalla sál.“
Ferðalangur: „Og hvað myndi það kallast sem fær mörgæs til að vernda hluta af rotnuðum leifum einstaklings af sinni eigin tegund fyrir árásum hrææta til þess eins að leifarnar verði ekki étnar af hræætunni og mörgæsin lætur sig jafnvel hafa árásir hræætunnar á meðan hún neitar að sleppa rotnuðum leifunum?“
Hugsuður: „Eins og þú vilt. Þá er aðeins eftir það sem flestir kalla vitsmuni.“
Ferðalangur: „Þú meinar að það sé hæfileikinn sem greini verurnar sérstaklega frá öðrum tegundum?“
Hugsuður: „Já.“
Ferðalangur: „Þú hefur rétt fyrir þér. Verurnar eru nefnilega eina tegundin sem hefur ástríðufulla löngun til að þurrka út sína eigin tegund með nokkrum tökkum.“
Hugsuður: „Jæja, rökhyggjan sér til þess að þær halda sig frá því skrefi.“
Ferðalangur: „Áttu við það sem bjó upprunalega til þennan hæfileika?“
Hugsuður: „Þá er það einfaldlega það ástand sem kallast að vera með fullri meðvitund.“
Ferðalangur: „Er það virkilega?“
þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir