Tröllin Viturmaður og Barn sátu á steini austan við Sveinstinda og köstuðu litlum steinvölum í Langasjó.
Barn: „Ég verð að segja þér hvað ég sá niður á Kirkjubæjarklaustri í dag. Barn eitt blandaði saman í glas sápu og vatni, tók rör og blés í sápulögin sem varð til.“
Viturmaður: „Það heitir að blása sápukúlur.“
Barn: „Hver sápukúla skildi sig frá þeirri næstu með þunnri filmu af vatni. Sápukúlurnar voru mismunandi stórar og litlar. Þær voru heldur ekki allar jafnkringlóttar en þó voru þær svipaðar á einhvern hátt. Stundum leystist þunna filman á milli tveggja sápukúlna upp og til varð ein, sameinuð, stærri sápukúla. Auk þess urðu stundum til fleiri nýjar sápukúlur úr sápukúlunum.“
Viturmaður: „Láttu mig þekkja það.“
Barn: „Eftir stutta stund byrjuðu sápukúlurnar að öðlast vitund og ein og ein sápukúla fór að hugsa um mikilvæga hluti og deila hugsunum sínum og upplifun með öðrum. Glasið fylltist af þúsundum upplýsinga, til dæmis hvað bæri að gera til að þunn vatnsfilma sápukúlunnar yrði fallegri, hvernig hindra mætti að maður springi of snemma eða hvernig koma mætti í veg fyrir að tvær sápukúlur yrðu að einni eða ein að mörgum. Aðrar sápukúlur veltu fyrir sér hvort það væri gott eða vont að tvær sápukúlur sameinuðust til að mynda eina eða þegar ein sápukúla yrði að mörgum. Aðrar svipað þenkjandi sápukúlur sem voru að takast á við það vandamál að hafa ekki (að eigin mati) nægilegt pláss, sameinuðust öðrum sápukúlum og stóðu sameinaðar gegn hverri þeirri sápukúlu sem gerði sig líklega til að véfengja plássið þeirra. Ef einhver tók ekki þátt eða leit út fyrir að ætla ekki að standa með þeim, þá krömdu þær viðkomandi og deildu þunnri filmunni á milli sín.“
Viturmaður: „Þetta er allt mjög hefðbundið.“
Barn: „Vitibornu sápukúlurnar komu sér saman um að þær þyrftu grundvöll til að skilja það sem væri í gangi. Þær deildu því sem þær skynjuðu í einingar, ákváðu hvað kæmi á undan og eftir og þróuðu kerfi og rökfræði til að skapa grundvöll fyrir samanburðarstaðhæfingar.“
Viturmaður: „Það er mjög sniðugt.“
Barn: „Margar sápukúlur voru lamaðar af ótta um að þær yrðu ekki jafnstórar og hinar en sumar stóru sápukúlurnar óttuðust hins vegar að þær yrðu litlar og reyndu að koma í veg fyrir það með öllum tiltækum ráðum. Hér og þar var sápukúla sorgmædd yfir stöðu sinni og margar eyðilögðu sig jafnvel sjálfar af þeim sökum. Aðrar sápukúlur litu svo á að þær hefðu fengið of lítið, að þær hefðu ekkert fengið af því sem þær áttu rétt á og vörðu sig fullum hálsi, fóru í fýlu eða sprikluðu um til þess að aðrar sápukúlur leiðréttu ástandið.“
Viturmaður: „Eðlilega.“
Barn: „Vitrustu sápukúlurnar fylgdust með þessum atburðum á grundvelli kerfisins og rökfræðinnar og þróuðu hvort tveggja enn frekar. Þær skilgreindu sápukúlur út frá þunnri filmu þeirra og innra rými sápukúlnanna og útbjuggu lýsingu og skýringar út frá því á innra rými sápukúlunnar, yfir rýmið sem sápukúlan tók, þá atburði sem bar fyrir augu, ákveðinn tímapunkt fyrir upphaf og endi sápukúlunnar, frá því sápukúla var og þar til hún var ekki og yfir sápukúlur sem urðu til úr engu, því þó þær væru ekki til í augnablikinu benti allt til þess að þær yrðu til síðar.“
Viturmaður: „Skynsamlegt.“
Barn: „Öðrum sápukúlum stóð ekki lengur á sama um þetta allt saman og eyddu því tímanum í að gera grín að litnum á þessari eða hinni sápukúlunni sem þeim fannst vera „skakkur“ eða elta aðra sápukúlu sem virtist vera sérstaklega „heit“ á litinn.“
Viturmaður: „Skiljanlega.“
Barn: „Skyndilega varð allt hljótt. Allar sápukúlurnar féllu saman. Þær sameinuðust í grátt, fitugt löður, lágu þéttar saman í einum, einsleitum massa, án þunnu filmunnar sem afmarkaði þær, án glitrandi lita og sameinaðar í hreyfingarleysi sínu slettust þær í glasið sem óspennandi sápulöður. Barnið sem hafði fylgst með þessum fyndna, litríka, öra og líflega gjörningi með glampa í augunum, var hætt að blása.“
Viturmaður: „Það hef ég líka séð.“
Barn: „Aðeins ein agnarsmá sápukúla sat föst í örvæntingu sinni á glasinu, fann endalokin nálgast, sá rörið við munn barnsins og lungu þess fyllast aftur af lofti.“
Viturmaður: „Ertu með sápu, vatn og glas? Mig langar að leika.“
Viturmaður og Barn söngluðu á meðan þau blésu í glasið sitt:
Meðals notur
skyli manna hver:
æva til snotur sé.
Því að snoturs manns hjarta
verður sjaldan glatt,
ef sá er alsnotur er á.
1) „Hávámál og Völuspa“, Gísli Sigurðsson, Svart á Hvítu, Reykjavik 1986
þýðandi: Guðrún Sævarsdóttir
Uppáhaldssagan mín 😉